Enski boltinn

Tottenham fær leyfi fyrir nýjum leikvangi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Tottenham eru spenntir fyrir nýjum leikvangi.
Stuðningsmenn Tottenham eru spenntir fyrir nýjum leikvangi. Vísir/Getty
Borgarráð Haringey-hverfisins í Lundúnum hefur gefið grænt ljós á að Tottenham reisi nýjan leikvang í hverfinu.

Þetta tilkynnti félagið í gær en vonir standa til að félagi geti opnað nýjan og glæsilegan leikvang sem muni rúma 61 þúsund manns í sæti árið 2018.

White Hart Lane hefur verið heimavöllur Tottenham frá 1898 en það hefur verið í umræðunni í dágóðan tíma að fá nýjan leikvang fyrir félagið. Meðal annars kom til greina að Tottenham myndi flytja á Ólympíuleikvanginn í borginni.

Nýi leikvangurinn verður byggður á sama reit og White Hart Lane og mun því félagið líklega þurfa að spila á öðrum velli á þarnæsta tímabili, á meðan framkvæmdir standa yfir.

Í júlí á þessu ári komst Tottenham að samkomulagi við NFL-deildina í Bandaríkjunum að minnst tveir leikir fari fram á nýja vellinum á ári hverju í tíu ár.

Boris Johnson, borgarstjórinn í Lundúnum, þarf nú að gefa formlegt samþykki fyrir byggingu nýs vallar en hann hefur áður lýst því yfir að hann sé hlynntur áætlununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×