Fótbolti

Luis Suarez gerði það sem Pele hafði bara afrekað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Vísir/Getty
Úrúgvæmaðurinn Luis Suarez kom sér í dag í hóp með brasilísku fótboltagoðsögninni Pele þegar hann skoraði öll mörk Barcelona í 3-0 sigri á Guangzhou Evergrande í undanúrslitum heimsmeistarakeppni félagsliða.

Þetta var fyrsta þrennan í heimsmeistarakeppni félagsliða frá upphafi (2000-2015) en Pele skoraði þrennu í forvera keppninnar þegar Evrópumeistararnir og Suður Ameríku meistararnir mættust bara.

Nú taka þátt í keppninni fulltrúar allra álfanna innan FIFA og fer keppnin oftast fram hinum megin á hnettinum eins og í Japan þar sem hún er að þessu sinni.

Pele skoraði þrennu þegar lið hans Santos frá Brasilíu vann 5-2 sigur á Benfica frá Portúgal í seinni úrslitaleiknum árið 1962. Leikurinn fór fram í Lissabon og skoraði Pele mörkin sín á 15., 25. og 64. mínútu.

Pele skoraði alls fimm mörk í keppninni þetta ár en hann skoraði tvö af þremur mörkum Santos í 3-2 heimasigri á Benfica í fyrri leiknum sem fram fór á Estádio do Maracana í Rio de Janeiro.

Suárez hefur skorað 15 mörk í síðustu 10 leikjum sínum og er alls kominn með 22 mörk í 23 leikjum á þessu tímabili. Með öðrum orðum þá er hann farinn að skila Messi-tölum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×