Innlent

Boðar til þjóðarátaks um bætt læsi barna

Ingvar Haraldsson skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að gera þurfi meira til að bæta læsi.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að gera þurfi meira til að bæta læsi. vísir/gva
Níutíu prósent barna sem ljúka grunnskólanámi árið 2018 eiga að geta lesið sér til gagns. Það er markmið átaksverkefnisins „Þjóðarsáttmáli um læsi“ sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra mun hleypa af stokkunum á næstu dögum.

„Við þurfum að gera mun betur, bæði skólarnir og heimilin,“ segir Illugi. Samkvæmt niðurstöðu PISA-prófsins árið 2012 gátu 30 prósent drengja og 12 prósent stúlkna ekki lesið sér til gagns.

„Það sem við höfum séð á undanförnum árum og áratug er að læsinu hefur hrakað ár frá ári og við getum ekki sætt okkur við það,“ segir Illugi.

Illugi segir verkefnið í samræmi við Hvítbók um umbætur í menntamálum sem hann lagði fram fyrir rúmu ári. Verkefnið verði unnið í samstarfi við öll sveitarfélögin á landinu. Illugi muni ferðast hringinn í kringum landið í haust til að undirrita samkomulag um átakið við sveitarfélögin.

„Þarna erum við að taka saman höndum um að tryggja það að börnin nái að tileinka sér þennan grundvallarþátt, að börnin geti lesið sér til gagns. Það er erfitt að benda á þau mál sem hafa jafn mikla þýðingu, bæði fyrir einstaklingana og samfélagið allt,“ segir Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×