Innlent

Fiskurinn sem fjötraði þingið

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Allt útlit er fyrir að samkomulag sé í fæðingu um fyrirkomulag makrílveiða. Náist það er líklegt að samkomulag náist um þingfrestun.
Allt útlit er fyrir að samkomulag sé í fæðingu um fyrirkomulag makrílveiða. Náist það er líklegt að samkomulag náist um þingfrestun. mynd/Jón Jónsson
Óhætt er að segja að frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um kvótasetningu á makríl hafi verið umdeilt. Kannski kemur það einhverjum á óvart að makríll sé jafn umdeilt efni og raun ber vitni, en þegar á það er litið að virði makrílkvótans getur verið á bilinu 150 til 170 milljarðar á það kannski ekki að koma á óvart.

Samkvæmt frumvarpi ráðherra skyldi makríllinn kvótasettur og heimildum úthlutað til sex ára. Með því hugðist ráðherra koma til móts við útgerðina sem kallar eftir því að aflaheimildum sé úthlutað til lengri tíma þannig að hægt sé að skipuleggja rekstur fyrirtækja betur, en einnig til móts við þá sem eru andvígir því að makrílkvóta sé úthlutað til frambúðar, hann verði framseljanleg eign.

Skemmst er frá því að segja að ráðherra tókst að gera báða hópana ósátta og málið hefur verið í atvinnuveganefnd um langt skeið.

Makrílfrumvarpið er eitt af þeim málum sem hafa skapað þann hnút sem þingstörfin hafa verið í. Stjórnarandstaðan lagði á það ríka áherslu að óbreytt færi frumvarpið ekki í gegn. Og eftir því sem nær dró áætlaðri þingfrestun og æ fleiri mál voru að brenna inni styrktist staða stjórnarandstöðunnar til að stöðva málin.

Eins og áður segir leit allt út fyrir að samningar væru að nást í síðustu viku, en þá var tilkynnt á fundi atvinnuveganefndar að ráðherra hygðist gera breytingar á reglugerðinni sem lytu að því að aflaheimildum yrði úthlutað til sex ára í stað þriggja.

Það fór þversum í stjórnarandstöðuna sem stóð í þeirri meiningu að bráðabirgðaákvæði yrðu framlengd í eitt ár. Heimildir Fréttablaðsins herma að innan stjórnarandstöðunnar sé litið svo á að það fyrirkomulag sem verði ofan á núna verði um ókomna framtíð. Að ráðherra hafi heykst á því að gera stórar breytingar á makrílnum.

Í byrjun þessarar viku tilkynnti ráðherra hins vegar um enn eina breytinguna, að nú yrði úthlutað til eins árs, og málið síðan endurskoðað. Slíkar breytingar hugnast stjórnarandstöðunni betur, enda tímabundnar, en samrýmast þó ekki vilja margra sem standa gegn kvótakerfinu.

Málið er enn í atvinnuveganefnd og hefur verið sent fjölmörgum til umsagnar eftir breytingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×