Innlent

Vistarbandi komið á opinbera starfsmenn

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Frá síðasta fundi í karphúsinu Samninganefnd ríkisins er vinstra megin og samninganefnd BHM til hægri, en í miðið situr Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. Fréttablaðið/Ernir
Frá síðasta fundi í karphúsinu Samninganefnd ríkisins er vinstra megin og samninganefnd BHM til hægri, en í miðið situr Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. Fréttablaðið/Ernir
Þórunn SveinbjarnardóttirVísir
Engar viðræður hafa átt sér stað í kjaradeilum BHM og hjúkrunarfræðinga við ríkið frá því lög voru sett á verkfallið um síðustu helgi.

Félagsfundur hjúkrunarfræðinga skoraði í vikunni á stjórnvöld að ganga án tafar til samninga og hefur Ólafur G. Skúlason, formaður félagsins, lýst vilja til þess að reyna til þrautar að landa samningi.

Ríkissáttasemjari hefur verið í sambandi við deiluaðila, en enn hefur ekki þótt ástæða til að boða til funda, að sögn Elísabetar S. Ólafsdóttur, skrifstofustjóra hjá Ríkissáttasemjara. Síðustu fundir í deilunum voru haldnir tíunda þessa mánaðar, en lög voru sett á verkfallið laugardaginn þrettánda.

Lögboðið er að fundað sé að minnsta kosti hálfsmánaðarlega í kjaradeilum hjá Ríkissáttasemjara. Komi ekki til funda fyrr verða samninganefndirnar því í síðasta lagi að hittast miðvikudaginn 24. júní. Ríkissáttasemjari myndi þá boða til fundarins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir segir mjög erfitt að segja til um líkurnar á því að saman náist í kjaradeilunni við ríkið fyrir tilskilinn frest í lögunum sem sett voru á verkfallið, 1. júlí. Hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma skipar Hæstiréttur gerðardóm sem kveða á upp úr um kjör stéttanna fyrir 15. ágúst.

„Í rauninni er málið í höndum samninganefndar ríkisins,“ segir Þórunn. „Ef ríkið hyggst taka skref í áttina til krafna BHM þá væri sannarlega tilefni til að hittast, en það hefur ekkert slíkt gerst.“

Þórunn segir ljóst af orðanna hljóðan í lögunum, sem sett voru á verkfallið, að ekki megi grípa til neinna aðgerða til að þrýsta á samninga fram að þeim tíma að gerðardómur kveður upp úrskurð sinn. „Og það er ekki hægt að lesa lögin öðru vísi en svo að það sé jafnvel svo að fólk sem segir starfi sínu lausu geti ekki hætt á tilskildum tíma heldur sé hægt að lengja uppsagnarfrestinn.“ Þá vísar hún til ákvæða í lögum um opinbera starfsmenn um framlengingu uppsagnarfrests ef „til auðnar horfi“ í starfsstétt.

Í lögin sem sett voru um síðustu helgi banna verkfallsaðgerðir BHM og hjúkrunarfræðinga „svo og frekari vinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir þessara aðila sem er ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða“.

„Samkvæmt lögunum þá hefur ríkið öll tromp á hendi og búið að setja rammann fyrir gerðardóminn, með efnahagslegum forsendum,“ segir Þórunn og kveður ríkið búið að festa starfsfólk sitt með einhvers konar bandi. „Kannski vistarbandi.“

BHM hefur lýst því yfir að stefna eigi ríkinu vegna lagasetningarinnar á verkföllin. „Sá undirbúningur hefur verið í fullum gangi undanfarna sólarhringa,“ segir Þórunn og bætir við að farið verði fram á flýtimeðferð málsins fyrir dómi. Hún segist vonast til að stefnan verði tilbúin sem allra fyrst.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.Vísir/Pjetur
Vill gefa fólki tækifæri til að ná saman

„Ég er ekki farinn að skoða þetta, en vel getur verið að Landspítalinn sé að skoða þetta eða einhverjar heilbrigðisstofnanir,“ segir Kristján Þór Júlíusson, um ákvæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem heimila ríkinu að lengja uppsagnarfrest horfi til vandræða í starfsstétt vegna fjöldauppsagna. „En ástæða þess að ég er ekki að bera mig eftir þessu nú þegar, er að ég hlýt að treysta á og vonast til þess að menn reyni til þrautar að ná samningum í þessum glugga sem er opinn núna til 1. júlí. Það er öllum fyrir bestu að ná samningum ef gerlegt er.“

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

37. gr. Nú vill embættismaður biðjast lausnar, og skal hann þá gera það skriflega og með þriggja mánaða fyrirvara, nema ófyrirsjáanleg atvik hafi gert hann ófæran um að gegna embættinu eða stjórnvald, sem lausn á að veita, samþykki skemmri frest.



Skylt er að veita lausn ef hennar er löglega beiðst. Þó er óskylt að veita lausn frá þeim tíma sem beiðst er ef svo margir leita lausnar samtímis eða um líkt leyti í sömu starfsgrein að til auðnar um starfrækslu þar mundi horfa ef beiðni hvers um sig væri veitt. Getur stjórnvald þá áskilið lengri uppsagnarfrest, allt að sex mánuðum, en á meðan heldur embættismaðurinn óbreyttum launakjörum og réttindum. Ákvörðun þessi skal tilkynnt embættismanni svo fljótt sem verða má og eigi síðar en þegar sex vikur eru eftir af upphaflegum uppsagnarfresti.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×