Innlent

Segir nemendur og kennara munu hópast til Reykjavíkur

Svavar Hávarðsson skrifar
Síðasta skólaár voru fimmtán ungmenni í Tónlistarskóla Ísafjarðar í námi á framhaldsstigi í tónlist. Þau eru á aldrinum 12-20 ára, þar af fjögur á grunnskólaaldri.
Síðasta skólaár voru fimmtán ungmenni í Tónlistarskóla Ísafjarðar í námi á framhaldsstigi í tónlist. Þau eru á aldrinum 12-20 ára, þar af fjögur á grunnskólaaldri. mynd/sigríður
Sigríður Ragnarsdóttir
„Ég hef þungar áhyggjur af þessu máli, ekki síst hvað varðar okkar skóla hér á Ísafirði sem og aðra tónlistarskóla úti á landi,“ segir Sigríður Ragnarsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, um hugmyndir sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur viðrað – róttækar breytingar á fjármögnun og skipulagi tónlistarnáms á framhaldsstigi.

Hugmyndin er að veita allt fjármagn ríkisins sem ætlað er til framhaldsnáms í tónlist til eins tónlistarskóla í Reykjavík. Sveitarfélög munu þar með reka sína tónlistarskóla án fjárframlags frá ríkinu.

Þetta kemur fram í greinargerð starfshóps sem 25 manna hópur tónlistarskólastjóra af öllu landinu undirritar og Fréttablaðið greindi frá á fimmtudag. Bréf vegna málsins var sent þingmönnum allra flokka, borgarfulltrúum og sveitarstjórnarmönnum.

„Námið við skólann er afar mikilvægur þáttur í lífi þessara ungmenna og mörg þeirra eiga örugglega eftir að verða atvinnumenn í tónlist. Ég vænti þess að þau myndu flest flytja héðan ef þau ættu ekki kost á tónlistarnámi við sitt hæfi,“ segir Sigríður og bætir við að þeir lengst komnu séu að vissu leyti „hjartað“ í skólastarfinu. „Þau eru fyrirmyndirnar fyrir hina nemendurna, ótrúlega öflug í félagslífi framhaldsskólans og í menningar- og skemmtanalífi bæjarins almennt. Það yrði því gríðarlegur missir fyrir samfélagið ef þau flyttu suður.“

Sigríður telur líklegt að hinir vel menntuðu og hæfu kennarar sem starfa við tónlistarskóla landsins myndu flytja burtu unnvörpum, enda yrði vart nóg fyrir þá að gera í skólunum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vildi lögfesta að ríkið styrkti tónlistarnám í samræmi við samkomulag þar um frá hennar ráðherratíð árið 2011, en frumvarpið kom aldrei fyrir þingið.

„Það er fullkomin óvissa um hvað verður um þá mörg hundruð nemendur sem eru í framhaldsnámi í tónlist en stór hluti þeirra stundar sitt nám utan höfuðborgarsvæðisins. Tónlistarskólarnir í landinu eru undirstaða okkar blómlega tónlistarlífs og ég efast stórlega um að þessi ráðstöfun verði til að efla starfsemi þeirra um land allt,“ segir Katrín.

Ráðherra segir málið á hugmyndastigiMennta- og menningarmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í gær vegna „hugsanlegra breytinga á fyrirkomulagi á stuðningi ríkisins við tónlistarnám framhaldsskólanemenda“. Telur ráðuneytið óvarlegt að dregnar séu viðamiklar ályktanir af þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir og stöðu málsins. Það sé á upphafsreit.

Ýmsar hugmyndir til lausnar hafi verið viðraðar, þar á meðal að setja á fót nýjan framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu með tónlist sem sérgrein. Til að bregðast við þessu hefur verið skipaður starfshópur með fulltrúum ráðuneytisins, fjármála- og efnahagsmálaráðuneytis, Sambands sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.

Samráð verði haft við alla hagsmunaaðila og þannig reynt að stuðla að því að sátt náist um málið enda mikið í húfi fyrir framtíð tónlistarnáms á Íslandi, segir þar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.