Innlent

Útflutningur hrossa liggur niðri

Sveinn Arnarsson skrifar
Hulda Gústafsdóttir, hestamaður og útflytjandi.
Hulda Gústafsdóttir, hestamaður og útflytjandi. Fréttablaðið/Stefán
Ekkert hross hefur verið flutt úr landi í yfirstandandi verkfallsaðgerðum dýralækna hjá Matvælastofnun. Á annað hundrað hross hafa verið seld úr landi og bíða nú fyrrverandi eigendur eftir því að geta flutt hrossin til nýrra heimkynna.

„Þetta veldur óneitanlega óþægindum fyrir hrossasölu. Á okkar vegum eru um 60 hross sem bíða eftir því að komast út. Hættan er sú að nýir eigendur bíði með að flytja út hross þar til í haust því það er ekki gott fyrir hrossin að koma út í sumarhitann. Á meðan munu þessi hross bíða hér á landi í einhvern tíma,“ segir Hulda Gústafsdóttir, tamningamaður og útflytjandi á Árbakka í Landsveit.

Útflytjendur segja þetta geta haft mikil áhrif á útflutning íslenska hestsins á þessu ári ef fram heldur sem horfir. Gunnar Arnarson og Eysteinn Leifsson eru einnig stórir aðilar í útflutningi hrossa og í gegnum þau þrjú fer obbi íslenskra hesta til útlanda. Um 140 hross bíða útflutnings hjá Eysteini og Gunnari. Hulda bendir á að þótt ástandið sé ekki gott er lán í óláni að háannatími í útflutningi hrossa er að haustlagi. „Það mun taka okkur einhvern tíma að ná í skottið á okkur því svo fer allt á fullt að hausti þegar langflest hross eru flutt úr landi.

Því vonum við að þetta verkfall leysist sem fyrst. En þó þetta hafi vissulega slæm áhrif á útflutning hrossa kemur þetta afar hart niður á svína og alifuglabændum og maður hugsar til þeirra stétta í dag,“ segir Hulda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×