Erlent

Alexander Stubb játar ósigur í finnsku þingkosningunum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Leiðtogar stærstu flokkanna velta fyrir sér útgönguspám.
Leiðtogar stærstu flokkanna velta fyrir sér útgönguspám. HEIKKI SAUKKOMAA/AFP
„Sigurvegari kosninganna er augljóslega Miðflokkurinn,“ sagði Alexander Stubb, forsætisráðherra Finnlands, þegar um 50 prósent atkvæða höfðu verið talin í finnsku þingkosningunum í gær.

Miðflokkurinn vann öruggan sigur en hann fékk um 22 prósent atkvæða sem er öruggt forskot á aðra flokka. Juha Sipilä, formaður Miðflokksins, mun því að öllum líkindum taka við af Alexander Stubb sem forsætisráðherra Finnlands.

Mesta spennan var þó fólgin í þriggja flokka baráttu Þjóðarbandalagsins, Jafnaðarmannaflokksins og Sannra Finna um annað sætið. Þjóðarbandalagið endaði í öðru sæti með um 18 prósent atkvæða en Sannir Finnar þóttu ná góðum árangri í kosningunum og náðu að komast fram úr jafnaðarmönnum á lokasprettinum.

Jafnaðarmannaflokkurinn er því talinn hafa farið verst út úr kosningunum en niðurstaðan er talin skaða möguleika þeirra á að komast í ríkisstjórn. Timo Soini, leiðtogi Sannra Finna, segir flokk sinn tilbúinn til að setjast í ríkisstjórn en margir telja óvæntan árangur þeirra renna stoðum undir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×