Erlent

Tyrkir reiddust Frans páfa

guðsteinn bjarnason skrifar
Frans páfi ásamt Karekin II., æðsta patríarka armensku rétttrúnaðarkirkjunnar, í Péturskirkjunni í Róm.
Frans páfi ásamt Karekin II., æðsta patríarka armensku rétttrúnaðarkirkjunnar, í Péturskirkjunni í Róm. fréttablaðið/EPA
Tyrknesk yfirvöld kölluðu í gær sendiherra Páfagarðs á sinn fund vegna ummæla Frans páfa, sem hafa farið mjög fyrir brjóstið á Tyrkjum.

Árið 1915 voru hundruð þúsunda Armena myrt í Tyrklandi. Í ávarpi á sunnudag sagði páfi þetta hafa verið fyrstu fjöldamorð 20. aldarinnar. Þetta hafði forveri hans, Jóhannes Páll II., reyndar einnig sagt í yfirlýsingu árið 2001.

Frans páfi tók í gær á móti Karekin II., æðsta partíarka armensku rétttrúnaðarkirkjunnar. Báðir tóku þeir þátt í messu í Péturskirkjunni í Róm í tilefni þess að hundrað ár eru nú liðin frá fjöldamorðunum í Tyrklandi.

Tyrkir hafa aldrei viljað nefna þetta fjöldamorð, heldur tala þeir um gríðarlegt mannfall á báða bóga í hörðum átökum. Bæði Tyrkir og Armenar hafi þar gerst sekir um fjöldamorð, en mannfallið hafi samt ekki verið jafn mikið og Armenar hafi viljað vera láta.

Tyrkneskum yfirvöldum er þetta svo mikið hjartans mál að þar í landi er hreinlega bannað með lögum að tala opinskátt um þessa atburði. Fyrir níu árum var blaðamaðurinn Hrant Dink, sem var bæði af tyrkneskum og armenskum ættum, dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að gagnrýna þessa afneitun Tyrkja á þjóðarmorðinu á Armenum. Hann var svo myrtur árið eftir. Frans páfi hikar þó ekki við að kalla þetta þjóðarmorð, en minnti í ávarpi sínu í gær á fleiri voðaverk á okkar tímum, þar á meðal útrýmingarherferðir á hendur kristnu fólki.

Hann sagði morðin á Armenum hafi verið fyrstu fjöldamorð 20. aldarinnar, en á eftir hafi fylgt voðaverk bæði nasista og stalínista. „Og síðar hafa verið framin fjöldamorð víðar, eins og í Kambódíu, Rúanda, Búrúndí og Bosníu. Svo virðist sem mannkynið sé ófært um að stöðva úthellingu á saklausu blóði,“ sagði páfi í gær. „Enn höfum við ekki áttað okkur á því að stríð er brjálæði, tilgangslaus slátrun.“

Það var Levant Murat Burhan, aðstoðarutanríkisráðherra Tyrklands, sem tók á móti Antonio Lucibello, sendiherra Páfagarðs, og sagði ummæli páfa um þjóðarmorðið á Armenum hafa valdið tyrkneskum stjórnvöldum djúpri sorg og vonbrigðum. Hann sagði að Tyrkir myndu örugglega bregðast við með einhverjum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×