Erlent

Segja réttarfarið í Egyptalandi hrunið

guðsteinn bjarnason skrifar
Mohammed Badie, leiðtogi Bræðralags múslima, bak við lás og slá í Egyptalandi síðastliðið sumar.
Mohammed Badie, leiðtogi Bræðralags múslima, bak við lás og slá í Egyptalandi síðastliðið sumar.
Framkvæmdastjóri alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch segir réttarhöldin yfir Mohammed Badie og fleiri leiðtogum Bræðralags múslima í Egyptalandi hafa verið skrípaleik.

„Sú staðreynd að þeir sem sögðu frá fjöldamorðunum 2013 gætu farið í ævilangt fangelsi en hinir sem frömdu þessi dráp fái opinbera viðurkenningu sýnir fullkomlega hið ömurlega hrun réttarfarsins á þessum breytingatímum í Egyptalandi,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Sarah Leah Whitson, sem er framkvæmdastjóri samtakanna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.

Dómstóll í Egyptalandi staðfesti á laugardaginn líflátsdóma yfir Badie og þrettán öðrum háttsettum leiðtogum Bræðralagsins. Þeir voru upphaflega dæmdir til dauða 28. apríl síðastliðinn eftir átta mínútna réttarhöld. Alls voru nærri 700 manns dæmdir til dauða þennan dag eftir réttarhöld, þar sem sakborningarnir fengu enga möguleika til þess að koma við vörnum.

Mennirnir hlutu þessa dóma fyrir að hvetja til ofbeldis og morða eftir að egypski herinn hafði steypt stjórn Mohammeds Morsi forseta sumarið 2013. Bræðralag múslima mótmælti stjórnarbyltingunni og hundruð manna létu lífið þegar herinn réðst til atlögu gegn mótmælendum.

Enn er hægt að áfrýja dómunum til hæstaréttar í Egyptalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×