Innlent

Lengd jarðstrengja mörkum háð

Háspennulína
Háspennulína VÍSIR/STEFÁN
Jarðstrengur um Sprengisand getur að hámarki orðið 50 kílómetra langur vegna tæknilegra takmarkana í núverandi raforkukerfi.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sérfræðingahóps á vegum Landsnets um lagningu jarðstrengja á hærri spennum í íslenska raforkuflutningskerfinu.

Áætlaður stofnkostnaður við lagningu 50 kílómetra 220 kílóvolta jarðstrengs um Sprengisand með 400 megavatta flutningsgetu er um 6,6 milljarðar króna og 12,6 milljarðar ef lagðir eru tveir strengir með samtals 800 megavatta flutningsgetu.

„Til samanburðar er áætlaður stofnkostnaður 50 kílómetra langrar 800 megavatta loftlínu um 4,1 milljarður króna,“ segir í tilkynningu Landsnets.

Einnig kemur fram að verð á jarðstrengjum á hærri spennum, eða með mikla flutningsgetu, hafi lækkað verulega á síðustu árum, eða um allt að helming fyrir 220 kílóvolta strengi, á meðan verð á strengjum fyrir lægri spennu hafi lækkað mun minna.

Skýrsluhöfundar segja helstu ástæður lækkunar vera tækniþróun í framleiðslu og stóraukið framboð, meðal annars frá framleiðendum utan Evrópu.

Auk þess kemur fram að varmaleiðni í íslenskum jarðvegi geti takmarkað flutningsgetu jarðstrengja hér á landi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×