Erlent

Harðorðir í garð bandarískra stjórnvalda

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Leiðtoga Norður-Kóreu var ekki skemmt yfir grínmyndinni The Interview.
Leiðtoga Norður-Kóreu var ekki skemmt yfir grínmyndinni The Interview.
Ríkisstjórn Norður-Kóreu segir nýsettar viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn landinu vera lið í fjandsamlegri og ögrandi utanríkisstefnu þeirra.

Bandaríkin samþykktu viðskiptaþvinganir gegn þremur stofnunum og tíu einstaklingum í Norður-Kóreu eftir tölvuárás á kvikmyndafyrirtækið Sony vegna útgáfu á grínmyndinni The Interview, þar sem leiðtogi Norður-Kóreu er ráðinn af dögum. Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur reyndar neitað aðild að árásinni en kallaði hana jafnframt „réttláta aðgerð“.

Þetta er líklega í fyrsta skiptið sem Bandaríkin refsa öðru landi fyrir netárásir gegn bandarísku fyrirtæki. Samkvæmt tilkynningu frá Hvíta húsinu tengjast þeir aðilar sem beittir eru viðskiptaþvingunum netárásinni ekki beint en þær beinast meðal annars gegn leyniþjónustu Norður-Kóreu, stærsta vopnaframleiðenda ríkisins og nokkrum norðurkóreskum stjórnmálamönnum.

„Stefnan sem Bandaríkjastjórn tekur stöðugt til að bæla niður norðurkóreska lýðveldið skapar ástæðulausa óvild gegn ríkinu og styrkir aðeins vilja og ásetning þess til að verja sjálfstæði sitt,“ sagði í tilkynningu frá ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu. „Hinar stöðugu og einhliða aðgerðir Hvíta hússins sem leggja „viðskiptabann“ á Norður-Kóreu sanna greinilega að Bandaríkjastjórn sé ekki enn hætt að sýna lýðveldinu rótgróna andstyggð og óvild.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×