Innlent

Siggi hakkari játar kynferðisbrot gegn níu drengjum

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður var úrskurðaður í gæsluvarðhald í nóvember á síðasta ári vegna kynferðisbrotamálanna.
Sigurður var úrskurðaður í gæsluvarðhald í nóvember á síðasta ári vegna kynferðisbrotamálanna. Vísir/Stefán
Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur undir nafninu Siggi hakkari, hefur játað að hafa gerst sekur um kynferðisbrot gegn níu piltum. RÚV greindi fyrst frá.  Hann á yfir höfði sér refsingu allt að fjórum árum sem er refsiramminn í kynferðisbrotum af því tagi sem hann er ákærður fyrir.

Ákæra gegn Sigurði var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í þessum mánuði en tók Sigurður Ingi sér frest til að taka afstöðu til ákærunnar. Hann kom fyrir dóm í morgun þar sem hann játaði sök í öllum ákæruliðum. Málið hefur því verið dómtekið og hefur héraðsdómur fjórar vikur til þess að kveða upp dóm.

Sigurður var úrskurðaður í gæsluvarðhald í nóvember á síðasta ári vegna kynferðisbrotamálanna. Í greinargerð lögreglu vegna gæsluvarðhaldskröfunnar kemur fram að ríkissaksóknari hafi til meðferðar ellefu kynferðisbrotamál gegn ellefu brotaþolum þar sem Sigurður hafi stöðu sakbornings. Ætluð brot voru framin á árunum 2010 til loka árs 2013. Þá gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út ákæru á hendur Sigurði í maí síðastliðnum vegna umfangsmikilla auðgunarbrota.

Sigurður var dæmdur í átta mánaða fangelsi í febrúar í fyrra fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára dreng. Tældi Sigurður drenginn til kynferðismaka. Afplánun Sigurðar lauk þann 2. nóvember. Eftir það sat hann í gæsluvarðhaldi. Hann var svo dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi 22. desember vegna fjársvika og hóf afplánun strax.

Í fyrrnefndri greinagerð kom fram að nokkur hinna ætluðu kynferðisbrota sem ríkissaksóknari hafi til rannsóknar hafi verið framin eftir að Sigurður var ákærður fyrir kynferðisbrot, það er þann dóm sem hann afplánaði á síðasta ári. Það bendi til einbeitts brotavilja að mati lögreglu. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.