Erlent

Hamas á ekki lengur að kalla hryðjuverkasamtök

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Hamas.
Stuðningsmenn Hamas. Vísir/AFP
Samtökin Hamas ættu ekki lengur að vera flokkuð með hryðjuverkasamtökum í augum egypskra stjórnvalda. Þetta er niðurstaða áfrýjunardómstóls í Kaíró en dómurinn var kveðinn upp í dag. Hann snýr við fyrri niðurstöðu á neðra dómsstigi. CNN greinir frá.

Hamas eru palestínsk samtök sem hafa barist fyrir því að einangrun Ísraelsmanna á Gaza svæðinu verði aflétt. Vísað hefur verið til samtakanna sem hryðjuverkasamtaka. Af þeim sökum töldu Ísraelsmenn það nauðsynlegt að ráðast á Gasa-svæðið síðastliðið sumar, í því skyni að kveða Hamasmenn í kútinn.

Þessi þróun í málinu gæti skipt sköpum þar sem núverandi ríkisstjórn Egypta tók við eftir að Mohamed Morsy var hrakinn frá völdum og herinn í landinu tók við. Morsy var leiðtogi Bræðralags múslima í Egyptalandi en Hamas samtökin eru enn angi bræðralagsins. Hamas samtökin eru í dag orðin sterk í Mið-austurlöndum og hafa meðal annars náð stjórn á Gasa-svæðinu.

Samskipti milli ríkisstjórnar Egyptalands og Hamas eru ansi stirð eftir að herinn tók við valdataumunum.

Hamas fagnaði dómsniðurstöðunni og talsmenn samtakanna sögðust vona að hún myndi hjálpa til við að liðka samskiptin við Egypta. „Við lítum á þetta sem leiðréttingu á fyrri mistökum,“ sagði á Twitter-reikningi Hamas. Þeir sögðust jafnframt líta svo á að ákvörðunin komi til með að hafa jákvæð áhrif á samskipti Egyptalands og Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×