Fótbolti

Neymar með flugeldasýningu í sigri Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar er orðinn markahæstur í spænsku úrvalsdeildinni með átta mörk.
Neymar er orðinn markahæstur í spænsku úrvalsdeildinni með átta mörk. vísir/getty
Brasilíumaðurinn Neymar var í miklu stuði þegar Barcelona vann 5-2 sigur á Rayo Vallecano í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Neymar skoraði fernu í leiknum en hann er orðinn markahæstur í spænsku deildinni með átta mörk.

Börsungar lentu undir á 15. mínútu þegar Javi Guerra skoraði fyrir Rayo Vallecano en Neymar jafnaði metin úr vítaspyrnu sjö mínútum seinna. Hann skoraði svo sitt annað mark af vítapunktinum á 32. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik.

Neymar fullkomnaði þrennuna á 69. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði hann sitt fjórða mark eftir undirbúning Luís Suárez sem gerði svo fimmta markið á 77. mínútu eftir sendingu Neymars.

Jozabed lagaði stöðuna fyrir Rayo Vallecano þegar hann minnkaði muninn í 5-2 á 86. mínútu en fleiri urðu mörkin ekki.

Með sigrinum komst Barcelona upp í 2. sæti deildarinnar með 18 stig, jafnmörg og Real Madrid en lakari markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×