Í grein Dagens Nyheter er sagt frá nokkrum þeim slysum sem tengdust selfie-myndatökum.
Þrír indverskir námsmenn á aldrinum 20 til 22 fórust í janúar þegar þeir tóku mynd af sjálfum sér á lestarspori í borginni Agra þegar lest kom aðvífandi. Í sama mánuði fórust tveir menn í sprengingu í Úralfjöllum þegar þeir tóku mynd af sér eftir að hafa tekið pinnan úr handsprengju.
Sjö manns á aldrinum 18 til 27 drukknuðu í fljóti í Nagpur í Indlandi þar sem þeir tóku selfie-myndir. Mennirnir stóðu allir upp öðru megin í bátnum sem þeir voru í með þeim afleiðinum af honum hvolfdi.
21 árs maður fórst í maí þegar hann féll niður í eldfjallið Merapi á eyjunni Java. Maðurinn var að taka selfie, varð fótaskortur og féll um 200 metra niður gíginn. Í sama mánuði fórst 21 árs Singapúri þegar hann féll tugi metra niður í sjóinn eftir að hafa misst fótanna þegar hann tók selfie á klettasyllu á Bali.
Átján ára rúmensk kona fórst þegar hún reyndi að taka selfie á þaki lestar í borginni Iasi í maí. Konan komst í snertingu við straum og fékk allt að 27 þúsund volta straum í gegnum sig og lést.
32 ára karlmaður fórst þegar hann tók selfie myndir í miðju nautahlaupinu í Villaseca de la Sagra á Spáni í ágúst.
Mikið hefur verið um slys í Rússlandi þar sem fólk hefur verið við myndatökur. „Við höfum fengið um hundrað mál inn á okkar borð frá upphafi árs,“ sagði Yelena Alexeyeva, aðstoðarmaður innanríkisráðherra Rússlands í samtali við Guardian í júlí.
Rússnesk yfirvöld hrundu því af stað herferð til að efla öryggisvitund fólks þegar kemur að selfie-myndatökum.
