Enski boltinn

Bony: Þetta voru mistök hjá Monk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sóknarmaðurinn Wilfried Bony segir að það hafi verið mistök hjá Garry Monk, knattspyrnustjóra Swansea, að setja sig út úr byrjunarliðinu fyrir leik liðsins gegn QPR í gær.

Bafetimbi Gomis byrjaði þess í stað í fremstu víglínu Swansea en Bony er einn markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar og skoraði sitt níunda mark á tímabilinu er hann tryggði Swansea 1-1 jafntefli í leiknum eftir að hafa komið inn á sem varamaður 20 mínútum fyrir leikslok.

„Ég kom inn á og sýndi honum að ég hefði átt að vera í byrjunarliðinu,“ sagði Bony eftir leikinn en Monk ákvað að taka Gylfa Þór Sigurðsson út af fyrir sóknarmanninn.

„Ég var settur inn á til að þrýsta liðinu fram og gera mitt besta til að skora. Það voru vonbrigði að byrja ekki en þjálfarinn tók sína ákvörðun. Það vilja allir spila,“ sagði hann enn fremur.

Bony hefur verið orðaður við bæði Manchester City og Chelsea að undanförnu og neitaði Monk að tjá sig um þær sögusagnir eftir leikinn í gær. „Það er ekki rétt að hugur hans sé byrjaður að reika annað. Hann er einbeittur og stendur sig vel fyrir Swansea,“ sagði hann.

Bony er á leið til Miðbaugsgíneu þar sem Afríkukeppnin í knattspyrnu hefst um miðjan mánuðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×