Lögregla á Spáni hefur handtekið átta Spánverja sem sakaðir eru um að hafa barist við hlið aðskilnaðarsinna í Úkraínu.
Innanríkisráðherra landsins segir mennina hafa verið gripna í samhæfðum aðgerðum lögreglu í sex héruðum víðs vegar um landið. Hafi aðgerðin verið sú fyrsta sinnar tegundar í Evrópu.
Í frétt BBC segir að mennirnir verði ákærðir fyrir aðild að morðum, ólöglegan vopnaburð og að brjóta hlutleysi Spánar í Úkraínudeilunni.
Aðskilnaðarsinnar hafa barist gegn úkraínska stjórnarhernum í austurhluta Úkraínu frá því í apríl á síðasta ári.
Spánverjarnir sneru nýverið aftur til heimalands síns eftir að hafa tekið þátt í bardögum í Donetsk-héraði á síðasta ári.
Að sögn lögreglu birtu mennirnir reglulega myndir af sjálfum sér með vopn og sprengjur. „Þetta er fyrsta lögregluaðgerðin í Evrópu sem beinist að erlendum stríðsmönnum í Úkraínu.“
Spænskir fjölmiðlar greina frá því að að sögn mannanna hafi þátttaka útlendinga í spænsku borgarastyrjöldinni veitt þeim innblástur til að ganga til liðs við aðskilnaðarsinna í Úkraínu.
Handteknir fyrir að hafa barist með aðskilnaðarsinnum í Úkraínu
Atli Ísleifsson skrifar
