Alfreð Finnbogason lagði upp jöfnunarmark Real Sociedad gegn Málaga í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Lokatölur 1-1.
Recio kom Málaga yfir á 55. mínútu og þannig var staðan fram á 83. mínútu þegar Rubén Pardo jafnaði metin eftir sendingu frá Alfreð sem hafði komið inn á sem varamaður sex mínútum áður.
Þetta var fyrsta stoðsending Alfreðs í búningi Sociedad en hann skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir félagið í 3-1 sigri á Córdoba um þarsíðustu helgi.
Alfreð og félagar eru í 10. sæti deildarinnar með 37 stig en Sociedad hefur fengið 10 stig af 12 mögulegum í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.
