„Pabbi var með heilaæxli og var sárkvalinn. Hann þurfti aðstoð við allar athafnir og var orðinn 50 kíló rétt áður en hann lést. Hann fór í geislameðferð sem virkaði ekki og var með heilaæxli á stærð við hálfa Mentos-rúllu. Svo kemur í ljós að geislameðferðin er búin að eyðileggja í honum vélindað og barkalokuna þannig að allt sem hann drakk fór bara beint niður í lungun og hann hóstaði því upp aftur. Þetta var bara samfelld heljarkvöl og það var hans heitasta ósk að fá að deyja með reisn.“
Faðir Ingridar fékk ósk sína uppfyllta í Hollandi, 11 dögum eftir að lög um líknardauða tóku gildi þar, en hann var hollenskur ríkisborgari.
„Það sem ég vildi sjá hérlendis er að finna betra orð yfir þetta því þetta er svolítið á reiki. Ég man þegar ég byrjaði fyrst að tala um þetta þá var talað um líknardráp og jafnvel líknarmorð en ef við skoðum þetta orð, euthanasia, ljúfur, góður dauðdagi, þá þurfum við að finna betra orð.“
Sjá einnig: Vill að fólk fái að deyja á eigin forsendum.
Líknarmeðferð bætir ekki lífsgæði í öllum tilfellum
En við þekkjum líknarmeðferð hér á landi, hver er munurinn á því og líknardauða?
„Já, pabbi fékk líknarmeðferð líka sem gengur út á að lina þjáningar. Sjúklingnum eru þá gefin morfín og verkjastillandi lyf og allt gert til þess og allt gert til þess að gera líf sjúklingsins sem þægilegast. En líknarmeðferð virkar ekki í öllum tilfellum og bætir ekki lífsgæði hjá öllum. Fyrir mér eru þetta mannréttindi og þetta er spurning um mannúð.“
Hún nefnir í þessu samhengi dýraverndunarlögin þar sem það telst siðlaust og ólöglegt að láta dýr þjást af óþörfu. Ingrid veltir því upp af hverju við skulum þá sýna minni mannúð þegar um fólk er að ræða sem þó getur gefið upplýst samþykki sitt sem dýr geta ekki.
Ingrid segir að líknardauði sé siðferðislegt álitamál og margar spurningar vakni í umræðunni. Til dæmis hafi margir spurt um það á málþingi Siðmenntar í seinustu viku hvað gert væri í tilfellum fólks sem geti ekki tjáð sig eða geti gefið vilja sinn til kynna.
Hlusta má á viðtalið við Ingridi í heild sinni í spilaranum hér að neðan og hér má sjá upptöku af málþingi Siðmenntar sem haldið var í seinustu viku.