Enski boltinn

Rio: United er að fara aftur á bak

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal er í veseni með United-liðið.
Louis van Gaal er í veseni með United-liðið. vísir/getty
Leikmenn Manchester United eru hræddir við að tjá sig á vellinum og liðið er að fara aftur á bak undir stjórn Louis van Gaal samkvæmt Rio Ferdinand, fyrrverandi miðvarðar liðsins.

Van Gaal hefur verið gagnrýndur harkalega fyrir spilamennsku Manchester United á leiktíðinni en liðið er nú án sigurs í síðustu fimm leikjum, úr leik í Meistaradeildinni og tapaði gegn nýliðum Bournemouth um síðustu helgi.

Ferdinand segir að leikstíll liðsins verði að breytast og það sem fyrst ætli liðið að hanga á Meistaradeildarsætinu. United er sem stendur í fjórða sæti í úrvalsdeildinni, fjórum stigum frá toppliði Arsenal.

„Leikmennirnir spila svo öruggt því þeir þora ekki að mæta afleiðingum þess að taka áhættur,“ segir Ferdinand í viðtali við The Sun.

„Manchester United er að fara aftur á bak aftur og ég sé það ekki breytast því knattspyrnustjórinn vill ekki breytast. Leikmennirnir verða að fá leyfi til að tjá sig á vellinum.“

Van Gaal er með samning til ársins 2017 en framtíð hans er í uppnámi vegna stöðu United-liðsins þessa dagana.

Pep Guardiola, þjálfari Bayern München, og Carlo Ancelotti, fyrrverandi þjálfari AC Milan og Real Madrid, hafa verið orðaðir við stjórastöðuna á Old Trafford.

„Pep og Carlo Ancelotti verða á lausi í sumar og spurningin er geta þeir staðið sig betur en Van Gaal?“ segir Rio.

„Stjórnin og eigendurnir gætu viljað halda tryggð við Van Gaal eftir að fjárfesta svona miklu í liðið fyrir hann en þeir verða líka að gera það besta fyrir Manchester United. Það verður katastrófa ef United nær ekki einu af efstu fjórum sætunum,“ segir Rio Ferdinand.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×