Erlent

Lögreglumaður í New York kærður fyrir að bana óvopnuðum manni

Bjarki Ármannsson skrifar
Lögreglumaður að störfum í New York.
Lögreglumaður að störfum í New York. Vísir/AP
Lögreglumaður í New York-borg sem skaut til bana óvopnaðan svartan mann í nóvember síðastliðnum hefur verið kærður vegna atviksins. Þetta hefur fréttastofa BBC eftir lögmanni kærustu hins látna en ekki hefur verið tilkynnt um kæruna opinberlega.

Lögreglumaðurinn Peter Liang skaut hinn 28 ára Akai Gurley á stigagangi við íbúð Gurley þann 20. nóvember án viðvörunar og að því er virðist fyrir slysni.

Fjölmenn mótmæli áttu sér stað víða um Bandaríkin í nokkrum nýlegum tilfellum þar sem ákveðið var að kæra ekki lögreglumenn sem höfðu orðið öðrum óvopnuðum svörtum mönnum að bana í starfi sínu. Þekktust eru sennilega tilfelli hins átján ára Michael Brown í bænum Ferguson og hins 43 ára Eric Garner í New York.

Yfirmaður Liang hjá lögreglunni segir hann eiga rétt á sanngjarnri málsmeðferð. Það verði að hafa í huga að Liang hafi verið á vakt í einni hættulegustu íbúðablokk borgarinnar. Þá hefur borgarstjóri New York, Bill deBlasio, kallað eftir því að fólk treysti á réttarkerfið í þessu máli og vottað fjölskyldu Gurley samúð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×