Fótbolti

Íslensku strákarnir mæta Grikkjum á heimavelli Alfreðs í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/Adam Jastrzebowski
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mun spila vináttulandsleik við Grikkland 29. mars næstkomandi og mun leikurinn fara fram á heimavelli landsliðsmannsins Alfreðs Finnbogasonar.

Þetta er annar af tveimur vináttulandsleikjum íslenska liðsins í mars en það á enn eftir að finna mótherja fyrir leikinn sem fer fram 24. mars.

KSÍ segir frá því á heimasíðu sinni að KSÍ hafi komið að samkomulagi við Knattspyrnusamband Grikklands um vináttuleik A landsliðs karla þriðjudaginn 29. mars næstkomandi.  

Leikið verður á heimavelli Olympiakos, Stadio Georgios Karaiskakis, í Piraeus í Aþenu, en sem kunnugt er leikur landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason með Olympiakos. Svo gæti þó farið að Alfreð verði ekki lengur leikmaður gríska liðsins þegar kemur að þessum leik í lok mars.

Báðir landsleikirnir strákanna okkar í mars fara fram á alþjóðlegum landsleikjadögum og eru þessi verkefni hluti af undirbúningi íslenska liðsins fyrir úrslitakeppni EM 2016, sem fram fer í Frakklandi í sumar.

Íslenska landsliðið mun spila þrjá vináttulandsleiki í janúar en þeir leikir fara ekki fram á alþjóðlegum landsleikjadögum og Ísland verður því ekki með fullt lið í þeim leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×