Erlent

Tugir látnir eftir sjálfsmorðssprengingar í Nígeríu

Bjarki Ármannsson skrifar
Hermenn nokkurra ríkja hafa barist gegn Boko Haram í Nígeríu um nokkurt skeið.
Hermenn nokkurra ríkja hafa barist gegn Boko Haram í Nígeríu um nokkurt skeið. Vísir/EPA
Rúmlega fimmtíu manns liggja í valnum eftir hrinu sjálfsmorðssprengjuárása í norðausturhluta Nígeríu. Hryðjuverkasamtökin Boko Haram eru talin bera ábyrgð á árásunum.

Nokkrar árásir í Borno-ríkinu urðu rúmlega þrjátíu manns að bana og særðu um hundrað. Síðar í dag sprengdu síðan tvær konur sig í loft upp á markaði í Adamawa-ríki þar sem rúmlega 25 létust, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu sem lofaði að ráða niðurlögum Boko Haram þegar hann tók við embætti í maí síðastliðnum, sagði í síðustu viku að stríðið gegn samtökunum væri „tæknilega séð unnið.“ Samtökin væru ekki lengur fær um að gera hefðbundnar árásir gegn öryggissveitum eða þéttbýliskjörnum.

Liðsmenn Boko Haram hafa orðið rúmlega sautján þúsund manns að bana í norðaustur-Nígeríu á síðastliðnum sex árum, eyðilegt fleiri en þúsund skóla og komið um einni og hálfri milljón manns á vergang.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×