Enski boltinn

Mahrez: Við verðum ekki meistarar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Leicester hefur komið öllum að óvörum með því að koma sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir fimmtán umferðir. Alsíringurinn Riyad Mahrez, einn besti leikmaður liðsins, reiknar þó ekki með að liðið haldi sætinu til loka tímabilsins.

Liðið slapp naumlega frá falli í vor en eru nú með tveggja stiga forystu á Arsenal á toppnum. Manchester-liðin koma svo í næstu tveimur sætum á eftir, stigi á eftir Arsenal.

„Ég tel ekki að við getum unnið deildina,“ sagði Mahrez við BBC og greinilegt að fyrsta markmið Leicester er enn að halda sér uppi. „Við þurfum að komast í 40 stig og við munum svo sjá til.“

Mahrez hefur skorað ellefu mörk í ensku úrvalsdeildinni í haust en liðsfélagi hans, Jamie Vardy, fjórtán. Alsíringnum hefur þó verið hampað sem einum allra besta leikmanni deildarinnar það sem af er tímabilsins.

„Árangurinn hefur ekki komið mér á óvart því ég vissi að ég gæti gert þá hluti sem ég hef gert,“ sagði hann.

„Knattspyrna snýst bara um sjálfstraust. Það eflist með hverju markinu sem maður skorar og það hefur hjálpað mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×