Fótbolti

Alfreð ónotaður varamaður í áttunda sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/EPA
Alfreð Finnbogason kom ekki við sögu þegar Olympiacos vann sinn fjórtánda sigur í röð í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Olympiacos vann þá 1-0 heimasigur á Panaitolikos og er því með 42 stig og markatöluna 39-8 eftir fjórtán fyrstu umferðirnar.

Alfreð Finnbogason sat allan tímann á bekknum þrátt fyrir að hafa skorað í síðasta deildarleik liðsins um síðustu helgi.

Alfreð fékk aðeins fjórar síðustu mínúturnar í vikunni þegar Olympiacos tapaði fyrir Arsenal og datt út úr Meistaradeildinni.

Það var Argentínumaðurinn Alejandro Domínguez sem skoraði eina mark Olympiacos í dag á fimmtu mínútu í uppbótatíma fyrri hálfleiks. Domínguez fékk tækifæri til að koma liðinu í 2-0 á 55. mínútu en klikkaði þá á vítaspyrnu.

Lið Olympiacos lék manni fleiri allan seinni hálfleikinn eftir að Dimitris Kyriakidis, markvörður Panaitolikos, fékk rauða spjaldið á 45. mínútu.

Marco Silva, þjálfari Olympiacos, notaði bara tvær skiptingar í leiknum en hann sendi inná brasilíska framherjann Sebá á 74. mínútu og kólumbíska framherjann Felipe Pardo á 75. mínútu.

Alfreð sat aftur á móti allan tímann á bekknum en þetta var í fimmta sinn í deildinni og í áttunda sinn í öllum keppnum þar sem Alfreð er ónotaður varamaður á tímabilinu. Alfreð hefur auk þess tvisvar verið fyrir utan hóp.

Alfreð hefur samtals spilað í 239 mínútur í grísku deildinni í fyrstu fjórtán umferðunum eða aðeins 19 prósent leiktímans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×