Enski boltinn

Tapaði 5-0 fyrir Morcombe 2009 en vann Man. Utd nákvæmlega sex árum seinna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eddie Howe er að gera flotta hluti með Bournemouth.
Eddie Howe er að gera flotta hluti með Bournemouth. vísir/getty
Nýliðar Bournemouth gerðu sér lítið fyrir um helgina og unnu Manchester United, 2-1, fyrir framan 11.500 áhorfendur á Dean Court-vellinum.

Bournemouth er nú á rúmri viku búið að leggja bæði Englandsmeistara Chelsea og Manchester United að velli og er komið upp í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 16 stig. Liðið er fyrir ofan meistara Chelsea eftir 16 umferðir.

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Bournemouth, er að upplifa drauminn með sitt lið en hann er búinn að koma því ansi langt. Bournemouth vann United 12. desember en þann dag fyrir nákvæmlega sex árum tapaði Bournemouth í ensku D-deildinni fyrir Morecombe, 5-0.

„Ég var minntur á það fyrir leikinn,“ sagði Howe aðspurður hvort hann vissi að nákvæmlega sex ár voru á milli þessara leikja.

„Ég vissi það ekki en allar tilfinningar brustu fram þegar mér var sagt af þessu. Það var hræðilegur leikur. Þetta sýnir samt hversu langt félagið er komið.“

„Ekki í okkar viltustu draumum gátum við ímyndað okkur þegar við vorum að spila við Morecambe að við myndum vinna Manchester United seinna meir í úrvalsdeildinni. Það átti ekki að vera hægt. Þetta sannar að allt getur gerst í fótboltanum. Þetta er ótrúlegur leikur,“ sagði Eddie Howe.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×