Fótbolti

Xavi: Veratti er einn af bestu miðjumönnum heims

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Veratti kom inn á sem varamaður þegar PSG vann 5-1 sigur á Lyon í gær.
Veratti kom inn á sem varamaður þegar PSG vann 5-1 sigur á Lyon í gær. vísir/getty
Xavi Hernández, fyrrverandi leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins, hefur lýst yfir hrifningu sinni á Marco Veratti, leikmanni Paris Saint-Germain, og segir að hann hafi allt að bera til að spila fyrir Barcelona.

„Ég er mjög hrifinn af honum,“ sagði Xavi í samtali við franska sjónvarpsstöð.

„Ég nýt þess að horfa á hann spila. Hann er með góða yfirsýn, góðar sendingar og það heyrir til undantekninga ef hann tapar boltanum.

„Hann býr yfir gríðarlegum hæfileikum og væri fullkominn fyrir Barcelona. Hann leikur með PSG, sem er eitt af bestu liðum Evrópu, og þeir spila frábæran fótbolta. Hann er einn af bestu miðjumönnum heims.“

Xavi yfirgaf Barcelona í sumar eftir 24 ára dvöl hjá Katalóníuliðinu og gekk til liðs við Al Sadd í Katar.

Veratti og félagar í PSG eru með yfirburðastöðu í frönsku úrvalsdeildinni þar sem þeir eru með 17 stiga forskot. Þá er Parísarliðið komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem það mætir Chelsea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×