Enski boltinn

Berahino farinn að spila með varaliði West Brom

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berahino er í frystinum hjá Tony Pulis.
Berahino er í frystinum hjá Tony Pulis. vísir/getty
Saido Berahino, framherji West Brom, mun spila fyrir varalið félagsins í kvöld til að komast í betra spilform.

Berahino er sem stendur í frystikistunni hjá Tony Pulis, knattspyrnustjóra West Brom, en hann hefur ekki verið í byrjunarliðinu síðan 21. október.

Berahino var mikið í fréttunum í sumar en Tottenham Hotspur gerði alls fjögur tilboð í hann sem öllum var hafnað.

Berahino tók illa í það og eftir að síðasta tilboðinu var hafnað á lokadegi félagaskiptagluggans skrifaði hann á Twitter-síðu sína að hann myndi ekki spila aftur fyrir West Brom á meðan Jeremy Peace væri enn stjórnarformaður félagsins.

Hinn 22 ára gamli Berahino var sektaður fyrir þau ummæli og Pulis talaði um að framherjinn gæti verið barnalegur og óþroskaður.

Berahino hefur gengið illa að festa sig í sessi í liði West Brom á tímabilinu en Pulis hefur frekar sett traust sitt á Salomón Rondón sem var keyptur frá Zenit á 17 milljónir evra í ágúst.

West Brom er ósigrað í síðustu fjórum leikjum sínum en í gær gerði liðið 2-2 jafntefli við Liverpool á útivelli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×