Enski boltinn

Messan: Gylfi hefur lent í gagnrýni vegna gengi liðsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn besta leik á þessari leiktíð.“

Þetta sagði Hjörvar Hafliðason, æðsti prestur í Messunni á Stöð 2 Sport 2 HD í gærkvöldi þegar farið var yfir leik íslenska landsliðsmannsins gegn Manchester City um helgina.

Góð frammistaða Gylfa dugði ekki til því Swansea tapaði leiknum, 2-1, á dramatískan hátt. Gylfi Þór skoraði að því virtist löglegt mark í leiknum en það var dæmt af vegna brots Bafétimbi Gomis á Joe Hart, markverði Man. City.

„Þetta var gamli góði Gylfi. Hann langaði mikið í þennan leik. Hann var að mæta þarna topp liði og þá sýna topp leikmenn topp leik,“ sagði Arnar Gunnlaugsson um Gylfa.

Jóhannes Karl Guðjónsson, nýráðinn spilandi aðstoðarþjálfari HK og fyrrverandi atvinnumaður í ensku úrvalsdeildinni, var gestur í Messunni í gær og hafði þetta að segja um Gylfa.

„Gylfi er náttúrlega frábær leikmaður og það hefur ekkert breyst. Hann hefur lent í gagnrýni vegna gengi liðsins því hann sjálfur átti frábært tímabil í fyrra. Gylfi er hörku leikmaður og var bestur í Swansea-liðinu í þessum leik,“ sagði Jóhannes Karl.

Alla umræðuna, þar sem einnig er farið yfir dráttinn í riðlakeppni EM 2016, má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×