Enski boltinn

Bikarævintýri Salford á enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Salford hafa skemmt sér konunglega í bikarnum þetta árið.
Stuðningsmenn Salford hafa skemmt sér konunglega í bikarnum þetta árið. Vísir/Getty
Utandeildarliðið Salford City er úr leik í ensku bikarkeppninni en liðið er í eigu fimm fyrrum leikmanna Manchester United.

Salford tapaði í gær fyrir D-deildarliðinu Hartlepool, 2-0, á útivelli en liðin þurftu að spila aftur eftir að hafa gert markalaust jafntefli í Salford. Hartlepool mætir næst Derby í þriðju umferð keppninnar.

Gary og Phil Neville, Ryan Giggs, Paul Scholes og Nicky Butt eru eigendur félagsins og 53 sætum fyrir neðan Hartlepool í ensku deildakeppninni. Liðið spilar í Northern Premier League Premier Division.

Salford átti þó meira í leiknum í gær framan af en tókst ekki að skora. Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma en Hartlepool skoraði tvívegis í framlenginunni og þar við sat.

„Ég er algjörlega eyðilagður. Leikmenn gáfu allt sitt í þetta. Við erum stoltir af þeim enda vorum við betri aðilinn í 180 mínútur,“ sagði Anthony Johnson, stjóri Salford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×