Enski boltinn

Endurtekur Stoke leikinn frá 1972?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Stoke fagna Phil Bardsley sem skoraði seinna mark liðsins gegn Sheffield Wednesday.
Leikmenn Stoke fagna Phil Bardsley sem skoraði seinna mark liðsins gegn Sheffield Wednesday. vísir/getty
Stoke City komst í gær í undanúrslit enska deildarbikarsins eftir 2-0 sigur á B-deildarliði Sheffield Wednesday á heimavelli sínum, Brittania Stadium.

Ibrahim Affelay kom Stoke yfir eftir hálftíma leik með sínu fyrsta marki fyrir félagið og Phil Bardsley gulltryggði svo sigurinn þegar hann kom Stoke í 2-0 á 75. mínútu.

Þetta er í fyrsta sinn í 43 ár sem Stoke kemst í undanúrslit deildarbikarsins, eða frá árinu 1972. Stoke-menn gerðu gott betur það ár og unnu deildarbikarinn en það er líklega stærsti titilinn sem félagið hefur unnið í 152 ára langri sögu þess.

Stoke sló West Ham út í undanúrslitunum 1972 og mætti Chelsea í úrslitaleiknum á Wembley.

Stoke bar sigurorð af Chelsea í úrslitaleiknum 1972.vísir/getty
Meðal þekktra leikmanna í herbúðum Stoke á þessum tíma má nefna Jimmy Greenhoff, Gordon Banks og George Eastham, en þeir tveir síðastnefndu voru hluti af enska landsliðinu sem varð heimsmeistari á heimavelli 1966.

Eastham var hetja Stoke í úrslitaleiknum fyrir 43 árum en hann skoraði sigurmark liðsins á 73. mínútu. Terry Conroy kom Stoke yfir strax á 5. mínútu en Peter Osgood jafnaði metin fyrir Chelsea á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Stoke, telur að liðið geti endurtekið leikinn frá 1972.

„Við eigum möguleika gegn hvaða liði sem er í tveggja leikja einvígi,“ sagði Hughes eftir sigurinn á Sheffield Wednesday.

Manchester City og Everton komust einnig áfram í gær og í kvöld kemur svo í ljós hvort það verður Liverpool eða Southampton sem tryggir sér síðasta lausa sætið í undanúrslitum deildarbikarsins.

Gordon Banks og félagar fögnuðu deildarbikarnum 1972 með stæl.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×