Enski boltinn

Klopp: Erum ekki í markvarðaleit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mignolet og Klopp kemur vel saman.
Mignolet og Klopp kemur vel saman. vísir/getty
Liverpool er ekki í leit að nýjum markverði. Þetta segir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins.

Simon Mignolet, aðalmarkvörður Liverpool, hefur á stundum legið undir gagnrýni fyrir frammistöðu sína en þrátt fyrir það segist Klopp bera fullt traust til Belgans.

„Þetta er fínn tímapunktur til að tala um markverðina hjá Liverpool. Ég er fullkomlega ánægður með stöðuna á markvarðamálunum hjá okkur.

„Mér þykir fyrir því að eyðileggja sögurnar ykkar um þýska markverði og markverði Stoke,“ sagði Klopp við blaðamenn en Jack Butland, aðalmarkvörður Stoke, er einn þeirra markvarða sem hefur verið orðaður við Liverpool.

„Við erum ekki að leita að nýjum markverði. Við erum með nóg af góðum kostum. Ég hef unnið með mörgum markvörðum á síðustu árum og Simon Mignolet er einn sá klárasti,“ bætti Klopp við.

Þjóðverjinn hefur mikla trú á Mignolet sem kom til Liverpool frá Sunderland sumarið 2013.

„Hann er opinn og nógu ungur til að bæta leik sinn. Hann átti erfitt uppdráttar áður en ég kom en ég hef ekkert upp á hann að klaga, ekki neitt. Hann er góður leikmaður.“

Óvíst er hvort Mignolet standi í rammanum þegar Liverpool mætir Southampton í 8-liða úrslitum deildarbikarsins í kvöld en Ungverjinn Adam Bogdan hefur leikið báða leiki liðsins í keppninni í ár.

Leikur Southampton og Liverpool hefst klukkan 19:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×