Enski boltinn

Áfall fyrir West Ham | Sakho frá keppni í 4-8 vikur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sakho meiddist gegn West Brom um helgina.
Sakho meiddist gegn West Brom um helgina. vísir/getty
West Ham verður án framherjans Diafra Sakho í næstu leikjum liðsins en hann meiddist á læri þegar Hamrarnir gerðu 1-1 jafntefli við West Brom á sunnudaginn.

Þetta eru vondar fréttir fyrir West Ham en sóknarmennirnir Dimitri Payet og Enner Valencia eru einnig á sjúkralistanum.

„Hann verður frá í 4-8 vikur, og jafnvel eitthvað lengur,“ sagði Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham, um stöðuna á Sakho sem hefur skorað þrjú mörk í 12 deildarleikjum í vetur.

West Ham keypti Sakho frá franska liðinu Metz fyrir aðeins 4,5 milljónir evra sumarið 2014.

Senegalinn átti fínt fyrsta tímabil í búningi West Ham og skoraði 10 mörk í 23 deildarleikjum. Alls hefur Sakho gert 13 mörk í 35 deildarleikjum fyrir West Ham.

Hamrarnir sitja í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en þeir hafa aðeins fengið tvö stig úr síðustu fjórum leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×