Enski boltinn

McClaren: Vonandi verður þetta snúningspunktur á tímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
McClaren og félagar eru enn í fallsæti þrátt fyrir sigurinn á Liverpool.
McClaren og félagar eru enn í fallsæti þrátt fyrir sigurinn á Liverpool. vísir/getty
Steve McClaren var létt eftir 2-0 sigur Newcastle United á Liverpool í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Sigurinn var kærkominn fyrir Newcastle-menn sem hefur gengið illa það sem af er tímabili. Með sigrinum jöfnuðu lærisveinar McClaren Norwich og Bournemouth að stigum en þrátt fyrir það er liðið enn í fallsæti.

„Þetta var risastór sigur, ótrúlega mikilvægur,“ sagði McClaren eftir sigurinn á St. James' Park í gær.

„Þetta hafa verið erfiðar tvær vikur. Liðið og allir sem tengjast því, hafa legið undir mikilli gagnrýni, og það réttilega. Við höfum haldið ró okkar og gerðum það eina sem hægt er að gera; svöruðum fyrir okkur inni á vellinum.“

Wijnaldum fagnar marki sínu í gær.vísir/getty
Staðan var markalaus í hálfleik í leiknum í gær en á 69. mínútu komst Newcastle yfir þegar Martin Skrtel, varnarmaður Liverpool, stýrði skoti Giorginio Wijnaldum í netið.

Það var svo Wijnaldum sem gulltryggði sigur Newcastle þegar hann skoraði annað mark liðsins í uppbótartíma. Þetta var sjöunda mark Wijnaldum í deildinni en Hollendingurinn hefur verið besti leikmaður Newcastle á tímabilinu.

McClaren var ánægður með frammistöðu Newcastle í gær en segir að leikmenn liðsins megi ekki ofmetnast.

„Við sýndum úr hverju við erum gerðir. Vonandi verður þetta snúningspunktur á tímabilinu,“ sagði McClaren.

„Það eru hæfileikar til staðar í liðinu og í dag sá ég trú og sjálfstraust sem hefur ekki verið sjáanlegt að undanförnu.“

Newcastle á tvo leiki eftir fram að jólum. Sunnudaginn 13. desember mætir liðið Tottenham og laugardaginn 19. desember fær Newcastle botnlið Aston Villa í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×