Fótbolti

Alves telur að Messi vinni Gullknöttinn með yfirburðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alves og Messi ná vel saman.
Alves og Messi ná vel saman. vísir/getty
Dani Alves er handviss um að Lionel Messi, samherji hans hjá Barcelona, fái Gullknöttinn 2015, sem veittur er besta knattspyrnumanni í heimi.

„Messi mun vinna Gullknöttinn í fimmta skipti og það með yfirburðum,“ sagði Alves en auk Messi eru þeir Cristiano Ronaldo og Neymar tilnefndir.

Ronaldo hefur unnið Gullknöttinn undanfarin tvö ár en þeir Messi hafa einokað verðlaunin frá árinu 2008.

„Hann stendur öllum öðrum framar, sérstaklega hvað varðar áhrifin sem hann hefur á liðið sitt,“ sagði Alves sem hefur áður sagt að Ronaldo eigi ekki skilið að vera tilnefndur til Gullknattarins í ár.

Messi, sem er nýkominn til baka eftir meiðsli, átti frábært tímabil með Barcelona í fyrra, þar sem liðið vann þrennuna svokölluðu; spænska meistaratitilinn, bikarkeppnina og Meistaradeild Evrópu.

Messi skoraði alls 58 mörk í 57 leikjum á síðasta tímabili og hefur gert níu mörk í 13 leikjum það sem af er þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×