Erlent

Áttatíu námsmenn veiktust eftir skyndibitaát

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Chipotle rekur fjölmarga veitingastaði vítt og breitt um Bandaríkin.
Chipotle rekur fjölmarga veitingastaði vítt og breitt um Bandaríkin. vísir/getty
Talið er að allt að 80 nemendur Boston College háskólans í Bandaríkjunum hafi veikst eftir að hafa borðað á veitingastað Chipotle Mexican Grill um helgina.

Veitingashúsakeðjan segir að veikindi viðskiptavina séu bundin við þetta eina útibú og megi ekki rekja til E. Coli veirunnar eins og upphaflega hafði verið greint frá vestanhafs.

Háskólinn sendi frá sér yfirlýsingu í gær um að 30 nemendur hefðu veikst og var veitingastaðnum í Boston, nánar tiltekið við Cleveland Circle, lokað í kjölfarið. Fjöldi veikra nemenda hefur því nánast þrefaldast á einum sólarhring.

Chipotle-keðjan hefur að undanförnu staðið í ströngu við að ráða niðurlögum E. Coli veirunnar en tilkynnt hefur verið um smit í fjölda útibúa keðjunnar í Massachusetts. Þá hefur keðjan verið bendluð við E. Coli smit í öðrum átta fylkjum í Bandaríkjunum sem hefur tekið sinn toll á viðskiptavild fyrirtækisins. Þá féllu hlutabréf í Chipotle um 5.4 prósent við opnun markaða í morgun.

Veikindin í Boston vill Chipotle þó rekja til nóróvíruss, ekki E. Coli, og segir þau afmörkuð við þetta tiltekna útibú. „Við höfum ekki fengið neinar fréttir af veikindum sem rekja má til annarra veitingstaða og það lítur út fyrir að þessi nóróvírus sé bundin við þetta eina útibú,“ sagði talsmaðurinn Chris Arnold í samtali við Reauters í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×