Fótbolti

Messi og Ronaldo eru alltaf í aðal­hlut­verkum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Allt snýst um tvo bestu fótboltamenn heims, Cristiano Ronaldo og Lionel Messi, þótt sá síðarnefndi hafi ekki verið með í tvo mánuði.
Allt snýst um tvo bestu fótboltamenn heims, Cristiano Ronaldo og Lionel Messi, þótt sá síðarnefndi hafi ekki verið með í tvo mánuði. Fréttablaðið/AFP
Annar af tveimur stærstu leikjum hvers tímabils í spænsku 1. deildinni, El Clásico, viðureign Real Madrid og Barcelona, fer fram á Santiago Bernabéu í höfuðborg Spánar í dag. Hinn stærsti leikurinn er vitaskuld þegar þessi risar og miklu erkifjendur mætast aftur.

Barcelona er efst í deildinni með 27 stig, þremur stigum á undan Real Madrid. Þessi lið vinna svo marga fótboltaleiki á hverju ári í spænsku deildinni að Real má einfaldlega ekki við því að tapa í dag og hleypa Börsungum sex stigum á undan sér. Það er því ansi mikið undir þó mótið sé ekki einu sinni hálfnað.

Messi eða ekki?

Brasilíski framherjinn Neymar hefur farið á kostum á tímabilinu og er að draga vagninn ásamt Luis Suárez í fjarveru Messi. Það hefur hann gert áður en er að skila enn betra hlutverki að þessu sinni.

Lionel Messi hefur ekki spilað síðustu níu leiki Barcelona vegna meiðsla en í síðustu sjö leikjum er Neymar búinn að skora tíu mörk og gefa sex stoðsendingar. Hann er í raun akkúrat á þessari stundu aðalmaður Barcelona-liðsins. Eða svo hefðu flestir haldið.

Saga leiksins er samt meira eða minna sú hvort Lionel Messi verði með. Argentínumaðurinn mætti aftur til æfinga í vikunni eftir að meiðast í byrjun október. Auðvitað verður hann með, en hverju getur hann skilað í fyrsta leik eftir þessi meiðsli? Hann getur með marki í dag orðið markahæsti leikmaðurinn í sögu deildarútgáfu El Clásico-leikjanna með 15 mörk. Hann er nú jafn Alfredo Di Stéfano með fjórtán.

Messi og Ronaldo eru alltaf stóra sagan fyrir hvern Clásico-leik og það breytist ekkert núna. Þegar tveir bestu fótboltamenn heims mætast í risaslag tveggja bestu fótboltaliða heims horfa allir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×