Innlent

Yfir 400 manns mynduðu ljósafoss niður Esjuna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ljósafossinn í hlíðum Esjunnar í gær.
Ljósafossinn í hlíðum Esjunnar í gær. mynd/ragnar th. sigurðsson
Yfir 400 manns mættu í Ljósafossgöngu Ljóssins á Esjuna í gær. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra og fagnar 10 ára afmæli sínu í ár. Gangan var farin í tilefni af því.

Að sögn Ernu Magnúsdóttur, forstöðumanns Ljóssins, heppnaðist gangan ákaflega vel.

„Það var glampandi sól, ofboðslega hlýtt og gott og smá föl í fjallinu. Við vorum um einn og hálfan tíma upp að steini, þar settu allir upp höfuðljós og svo gengum við niður í röð til að mynda svona nokkurs konar ljósafoss,“ segir Erna.

Aðspurð segir hún þetta ekki í fyrsta skipti sem farið er í slíka göngu.

„Við gerðum þetta líka þegar við vorum 5 ára en það voru miklu fleiri sem tóku þátt núna.“

Myndina hér að ofan tók ljósmyndarinn Ragnar Th. Sigurðsson sem er einn af þeim sem hafa notið þjónustu Ljóssins.


Tengdar fréttir

Fagna tíu ára afmæli Ljóssins

Styrktartónleikar verða haldnir í kvöld til þess að fagna tíu ára afmæli Ljóssins. Ljósalagið verður frumflutt en það var samið fyrir tilstilli Sigurðar Hallvarðssonar heitins.

Ljósið 10 ára: Mikilvægur stuðningur eftir veikindi

Ljósið endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Stofnendur byrjuðu með báðar hendur tómar en hafa byggt upp öflugt starf sem fer sífellt stækkandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×