Lífið

Fagna tíu ára afmæli Ljóssins

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Erna Magnúsdóttir, stofnandi Ljóssins.
Erna Magnúsdóttir, stofnandi Ljóssins. Vísir/Anton
„Við höldum tónleikana til þess að gleðjast saman og líka til þess að vekja athygli á því góða starfi sem fram fer í Ljósinu,“ segir Erna Magnúsdóttir stofnandi Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem fengið hefur krabbamein og aðstandendur þeirra.

Í kvöld fara fram afmælis- og styrktartónleikar í Háskólabíói í tilefni tíu ára afmæli Ljóssins.

„Við erum líka að fagna því að við höfum náð því að verða tíu ára. Þetta hefur kostað mikla vinnu, við söfnum tugum milljóna á ári til þess að reka starfsemina,“ segir Erna en ríkið styrkir Ljósið um helming þess sem það kostar að reka það. Fyrir hinum helmingnum er safnað en um 1.000 manns nýttu sér starfsemi Ljóssins í fyrra. Þar fer fram öflugt endurhæfingarstarf, bæði andlegt og líkamlegt.

Á tónleikunum koma fram fjölmargir listamenn sem gefa allir vinnu sína, meðal annars Jón Jónsson, María Ólafsdóttir, Friðrik Dór, Ragnheiður Gröndal, Sigríður Thorlacius, Baggalútur, Lay Low, Glowie, Sigríður Eyrún og Jón Ólafsson en Sólmundur Hólm er kynnir. Þeir tveir síðastnefndu sömdu einnig Ljósalagið svokallaða sem verður frumflutt á tónleikunum.

„Það var hinsta ósk Sigurðar Hallvarðssonar heitins fyrir Ljósið að það yrði samið Ljósalag,“ segir Erna en Sigurður lést í júlí í fyrra eftir baráttu við krabbamein. „Tveir vinir hans tóku það að sér. Jón samdi lagið og Sóli samdi textann. Lagið heitir Leitaðu í ljósið og verður frumflutt á tónleikunum. Karl Olgeirsson sá um að útsetja lagið og Sigga Eyrún syngur það ásamt skólakór Kársnesskóla,“ segir Erna.

Tónleikarnir fara fram í Háskólabíói og hefjast klukkan 20. Miðasala fer fram á Ljosid.is og við inngang. „Við ákváðum að stilla miðaverði í hóf því við vitum að það er dýrt að veikjast en við viljum að allir geti komið og glaðst saman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×