Innlent

Búa sig undir að slökkva á Straumsvík

Sæunn Gísladóttir skrifar
Álverið í Straumsvík er með 480 ker.
Álverið í Straumsvík er með 480 ker. Fréttablaðið/Birgir Ísleifur
Samþykkt hefur verið að stéttarfélög starfsmanna álversins í Straumsvík aðstoði Rio Tinto Alcan í tvær vikur við það að slökkva á álverinu, eftir að verkfall hefst annan desember. Ef ekki tekst að semja, hefst verkfall um 300 starfsmanna álversins eftir rúma viku.

Aðalágreiningsefnið er að sögn Ólafs Teits Guðnasonar, talsmanns Rio Tinto Alcan, að álverið í Straumsvík sitji ekki við sama borð og önnur fyrirtæki á Íslandi, varðandi möguleika til þess að bjóða út hluta starfseminnar, eins og mötuneyti og þvottahús. Það sé samkvæmt sérstökum ákvæðum í kjarasamningum sem eru síðan 1972, og engin önnur fyrirtæki á Íslandi búi við. 

Gylfi Ingvarsson. Fréttablaðið/Vilhelm
Ef ekki tekst að semja byrja þeir að slökkva á fyrsta kerinu í álverinu strax annan desember.

Gylfi Ingvarsson, talsmaður samninganefndar stéttarfélaga í álverinu, segir að ekkert hafi gerst á fundinum síðasta þriðjudag, en vonast til að samningar náist á fundinum á morgun. „Ég horfi til þess að það verði samið við launþega fyrir Straumsvík eins og annars staðar í samfélaginu,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að útboð þjónustu verði ekki tekið fyrir á fundinum á þriðjudaginn. „Við höfum hafnað því alfarið. Við höfum samningsréttinn fyrir öll þessi störf. Eins og er verið að semja um í samfélaginu í dag, og þetta SALEK samkomulag og svo framvegis gerir ekki ráð fyrir því að starfsmenn þurfi að semja einhvern hluta af sinni starfsemi fyrir lægri kjör. Þannig að við erum ekki að ræða það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×