Enski boltinn

Lingard kallaður inn í landsliðið | Leikur Englands og Frakklands verður spilaður

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lingard fagnar marki sínu gegn WBA fyrr í mánuðinum.
Lingard fagnar marki sínu gegn WBA fyrr í mánuðinum. vísir/getty
Jesse Lingard, framherji Manchester United, hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn fyrir æfingarleik gegn Frökkum. Leikið verður á Wembley á þriðjudag.

Þessi 22 ára gamli vængmaður mun koma til móts við liðið í dag, en bæði Michael Carrick og Jamie Vardy eru dottnir úr enska hópnum vegna meiðsla.

Carrick var borinn af velli á Spáni á síðustu mínútu leiksins á föstudag og er kominn til Manchester í meðhöndlun þar.

Vardy spilaði ekki gegn Spáni á Alicante á föstudag, en hann hefur einnig verið sendur aftur til síns heima. Hann hefur farið á kostum í ensku úrvalsdeildinni og er markahæstur í deildinni með tólf mörk.

Þau tíðindi að Lindgard hafi verið kallaður upp í A-landsliðið eru ekki líkleg til þess að gleðja Louis van Gaal, stjóra Manchester United, sem sagði fyrr í mánuðinum að „það væri of mikið of snemma".

Spili Lingard á þriðjudag verður það hans fyrsti A-landsleikur, en hann hefur leikið ellefu leiki fyrir U21-árs landslið Englands. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir U21 þegar hann kom inná gegn Skotlandi í ágúst 2013.

England kom frá Spáni í gær, en vangaveltur voru um hvort leikurinn gegn Frakklandi myndi fara fram vegna hryðjuverkaárasanna á París á föstudag. Knattspyrnusamböndin komust að samkomulagi að halda sig við leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×