Innlent

Vilja gæða fúkyrðaflóruna lífi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Fólk er mislagið við að tvinna saman kjarnyrt fúkyrði, auk þess sem smekkur fólks fyrir slíku er misjafn.
Fólk er mislagið við að tvinna saman kjarnyrt fúkyrði, auk þess sem smekkur fólks fyrir slíku er misjafn. Fréttablaðið/Stefán
„Það er fallegt að kunna að blóta á okkar ástkæra, ylhýra móðurmáli. Það er bragur yfir slíku blóti,“ segir Hafþór Sævarsson, nýkjörinn formaður Hins íslenska fúkyrðafélags. 

Félagið var stofnað á degi íslenskrar tungu og markmið þess er að vernda, efla og dýpka flóru íslenskra fúkyrða og treysta hlutverk íslenskrar tungu við tjáningu dólgsháttar og dónaskapar.

Hafþór segist uggandi yfir stöðu fúkyrða. „Við viljum viðhalda þeim góðu fúkyrðum sem þjóðin hefur varðveitt. Ásamt því leggjum við til að allir leggi hönd a plóg við nýyrðasmíð. Ávallt er sárt að sjá fallega hugsun í lörfum. Þá þarf að vanda til verka og skiptir góð umgjörð því miklu. Þar af leiðandi var stofnun félagsins lykilatriði.“

Spurður út í ágæt íslensk fúkyrði nefnir Hafþór meðal annars orðin flautakollur og fúlmenni, roluskaft og rolumenni. „Annars er orðið á götunni að ballarserðir og syndaselur séu í hávegum bakkabræðra höfð um þessar mundir.“ En er félagið að hvetja til þess að almenningur brúki ljótan munnsöfnuð í meira mæli?

„Lengi skal manninn reyna að þurfa að hlusta á ljót fúkyrði,“ segir Hafþór „Það munum við ekki lengur láta sem vind um eyrun þjóta. Dónaskapinn má þó í það minnsta klæða þannig að hægt er að una við að þurfa að hlusta á slíkan ósið.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.