Fótbolti

Markvörður PSG missti tvo vini í hryðjuverkunum í París

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Salvatore Sirigu.
Salvatore Sirigu. Vísir/Getty
Salvatore Sirigu, markvörður ítalska landsliðsins og frönsku meistaranna í PSG, hefur greint frá því að hann missti tvo vini í hryðjuverkaárásunum í Parísarborg á föstudaginn.

Mennirnir tveir ráku veitingastað í borginni en Sirigu var fastagestur þar ásamt fleiri leikmönnum PSG.

„Ég missti tvo stráka sem ég þekkti mjög vel. Tvo stráka af ítölskum ættum sem sinntu veitingarekstri sínum af ástríðu,“ sagði Sirigu í samtali við ítalska fjölmiðla.

„Sumir okkar, eins og Marco Verratti og Maxwell, vorum fastagestir á veitingastaðnum þeirra. Það er afar erfitt að sætta sig við að hafa misst tvo einstaklinga sem voru fastur liður í lífi okkar utan knattspyrnuvallarins.“

Sirigu sneri aftur til Parísar í dag en hann sagði mikilvægt að halda áfram að lifa sínu venjulega lífi.

„Ég tel að Frakkland hafi tekist á við þetta á sómasamlegan máta. Við þurfum að gera það sem við erum vanir að gera - æfa, spila og sýna því fólki sem á um sárt að binda samhug.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×