Innlent

Björgunarbáturinn losnaði ekki af Perlu

Samúel Karl Ólason skrifar
Til stendur að ná Perlu upp og hófust aðgerðir í morgun.
Til stendur að ná Perlu upp og hófust aðgerðir í morgun. Vísir/E.ÓL.
Björgunarbátur sanddæluskipsins Perlu, sem sökk í Reykjavíkurhöfn í gær, blés ekki út þegar skipið sökk. Það að báturinn hafi ekki blásið út er hluti af rannsókn Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem athugar hvers vegna skipið sökk.

Fyrr á árinu lét einn maður lífið í sjóslysi í Ísafjarðardjúpi þegar Jón Hákon BA sökk. Þá blésu tveir björgunarbátar sem þar voru ekki upp.

Sjá einnig: Sjómannasamtök krefjast þess að Jón Hákon BA 60 verði sóttur af hafsbotni

Við bryggjukantinn þar sem Perla sökk eru um sjö metrar niður á botn á stórstreymisfjöru en um níu metrar í meðalsjó. Í Skipaskrá er Perla sögð rista fjóra metra en ljóst er að björgunarbáturinn er hærra en það. Þó er ljóst að björgunarbáturinn fór nokkra metra á kaf, en losnaði ekki.

Sjá einnig: Sleppibúnaður veitir sjómönnum falskt öryggi

Yfirleitt hefur verið talað um að lokar björgunarbátanna eigi að losna á fjögurra metra dýpi, en þó hafa þeir blásið út á bæði minna og meira dýpi.

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarnefnd Samgönguslysa er þetta eitt af því sem skoðað verður í rannsókninni vegna atviksins. Hve mikinn þrýsting lokarnir þurfa til að losna og á hve miklu dýpi björgunarbáturinn á Perlu var.

Til stendur að ná Perlu upp og hófust aðgerðir í morgun. Reiknað er með að það muni taka nokkra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×