Innlent

Segja RÚV ekki hafa sagt fjárlaganefnd sannleikann

Sveinn Arnarsson skrifar
Forsvarsmenn RÚV blekktu engan vísvitandi, segir Magnús.
Forsvarsmenn RÚV blekktu engan vísvitandi, segir Magnús. vísir/stefán
Bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis telja forystu Ríkisútvarpsins hafa vísvitandi blekkt fjárveitingavaldið með því að gefa þeim rangar upplýsingar um stöðu stofnunarinnar.

Útvarpsstjóri hafnar því að hafa gefið fjárlaganefnd rangar upplýsingar.

Lögð var til tímabundin fjárheimild að upphæð 182 milljónum króna. Hún væri háð þeim skilyrðum að á vegum stjórnar félagsins fari fram endurskipulagning og áætlun gerð um sjálfbæran rekstur. Þær áætlanir þurftu að liggja fyrir eigi síðar en í lok mars 2015 til að fá fjárheimildina. Í kynningu sem fjárlaganefnd fékk var því haldið fram að RÚV hafi fullnægt skilyrðum sem sett voru fram. Fram kom hjá nefndarmönnum að þetta hafi ekki verið alls kostar rétt.

„Þeir sem fara með málefni RÚV verða að svara því hver axli þá ábyrgð. Það er ekki fjárlaganefndar að kveða upp þann dóm,“ segir Vigdís Hauksdóttir. „Það verður hins vegar að taka á slíkum málum og það er ráðherra að svara því hvernig það verður gert. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum að rangar upplýsingar séu lagðar fyrir nefnd sem hefur eftirlit með fjárreiðum ríkisins.“

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir það af og frá að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hafi blekkt fjárlaganefnd. Vinna hafi farið í gang með bæði aðilum frá fjármála- og menntamálaráðuneyti og í þeirri vinnu hafi allir aðilar verið ásáttir um að skilyrðum fjárlaganefndar hafi verið náð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×