Fótbolti

Alfreð: Það er bara á milli okkar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alfreð ósáttur í leiknum í dag.
Alfreð ósáttur í leiknum í dag. Vísir/vilhelm
Alfreð Finnbogason, framherji íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var ánægður með að fá tækifæri í byrjunarliði liðsins í 2-2 jafntefli gegn Lettum í undankeppni fyrir Evrópumótið í Frakklandi næsta sumar. Alfreð var þó ekki ánægður með spilamennskuna í síðari hálfleik.

„Það er erfitt að segja hvað gerist í síðari hálfleik. Við urðum passívari og hefðum átt að fara áfram upp í gegnum miðjuna eins og við vorum að gera vel í fyrri hálfleik,” sagði Alfreð í samtali við fjölmiðla í leikslok.

„Við vorum að opna þá þannig og við hættum að gera það í síðari hálfleik. Það er erfitt að útskýra afhverju,” sagði Alfreð sem var virkilega ánægður með fyrri hálfleikinn hjá íslenska liðinu, en þá spilaði Ísland fanta vel á köflum.

„Þetta var mjög góður fyrri hálfleikur. Það voru mjög góðar skiptingar milli kanta, vorum að skipta vel um stöður og vorum alltaf með þrjá til fjóra valmöguleika þegar við vorum að sækja á vörnina. Sóknarleikurinn var mjög góður í fyrri hálfleik.”

Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson hafa myndað framherjapar Íslands lengst um af í keppninni. Jón Daði lék ekki í dag vegna meiðsla og fékk því Alfreð langþráð tækifæri og var hann skiljanlega ánægður með það.

„Ég var mjög ánægður með að fá tækifærið. Ég er búinn að bíða lengi eftir því og ég gerði mitt besta. Ég er alltaf ánægður þegar ég fæ að spila, en maður vill alltaf meira,” og aðspurður hvað Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, hafði hvíslað í eyra Alfreðs þegar hann kom af velli svaraði Alfreð:

„Það er bara á milli okkar. Nei, nei, hann var ánægður með leikinn hjá mér og það er eitthvað til að byggja á,” sem veit ekki hvort hann byrji í Tyrklandi á þriðjudag.

„Það kemur bara í ljós. Það eru enn þrír dagar í þann leik; ferðalag framundan og tvær æfingar. Við svekkjum okkur á tveimur töpuðum stigum í dag og svo sjáum við til hvað gerist.”

Þessi 26 ára gamli framherji Olympiakos segir að menn hafi verið súrir og svekktir inn í klefa eftir jafnteflið þrátt fyrir að Ísland hafi tryggt EM sætið í síðustu umferð.

„Já, mjög svekktir. Við viljum vinna alla leiki og það er kominn þannig hefð í hópinn þannig við vorum ekki ánægðir,” sagði Alfreð að lokum.


Tengdar fréttir

Þjálfari Lettlands: „Ég gerði mistök“

Marian Pahars, þjálfari Lettlands, var að vonum sáttur eftir að hafa séð lærisveina sína vinna upp tveggja marka forskot Íslands í dag en hann sagðist hafa gert mistök þegar hann lagði leikinn upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×