Innlent

Íslendingar handteknir í tengslum við gríðarstóra kannabisræktun á Spáni

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá vöruskemmunni.
Frá vöruskemmunni. Mynd/Spænska þjóðvarnarliðið
Þrír Íslendingar eru meðal þeirra sem lögregla á Spáni hefur handtekið í tengslum við mjög umfangsmikla kannabisræktun í bænum Molina de Segura. Samkvæmt því sem kemur fram í spænskum fjölmiðlum fannst háþróaðasta kannabisgróðurhús sem fundist hefur í Evrópu, metið á um 140 milljónir íslenskra króna, í bænum.

Í frétt La Opinión de Murcia um málið kemur fram að 58 ára Íslendingur og sjö Hollendingar á aldrinum 27 til 43 ára hafi verið handteknir grunaðir um fíkniefnasmygl og skipulagða glæpastarfsemi. Miðillinn La Verdad greinir svo frá því að tveir íslenskir ríkisborgarar til viðbótar hafi verið handteknir á leið úr landinu. Jafnframt hafi fleiri meðlimir glæpasamtakanna verið handteknir á flugvellinum í Alicante á leið til Íslands.

Rannsókn lögreglu hófst þegar tilkynnt var um einkennileg frávik í rafmagnslínum í iðnaðarhverfi Molina de Segura. Við nánari skoðun kom í ljós að rafmagni var veitt í stóra vöruskemmu sem borgaði enga rafmagnsreikninga. Í skemmunni fundust um sex þúsund kannabisplöntur.

Talið er að framleiðslan hafi verið hluti af umfangsmiklum smyglhring, sem hafi flutt um tíu tonn af marijúana til Hollands í hverjum mánuði.

DV greindi frá málinu fyrstur íslenskra miðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×