Fótbolti

Jón Daði: Þetta var geðveikt skemmtilegt stríð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Daði kom aftur inn í liðið eftir að missa af síðasta leik vegna meiðsla.
Jón Daði kom aftur inn í liðið eftir að missa af síðasta leik vegna meiðsla. vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson, framherji Íslands, fékk harða tæklingu í leiknum gegn Tyrklandi í kvöld sem tapaðist, 1-0. Selfyssingurinn var tæklaður fast aftan frá og fékk Tyrkinn sem hlóð í tæklinguna réttilega beint rautt spjald.

„Ég var hræddur um hnéð því ég er búinn að vera tæpur í hnénu. Það var áhyggjuefnið fyrstu þrjár sekúndurnar en svo áttaði ég mig á að þetta var ekki eins vont og ég hélt þetta yrði,“ sagði Jón Daði við Vísi eftir leikinn.

„Þetta var klárlega rautt. Hann var alltof seinn og fór virkilega hátt með löppina. Þetta var stórhættulegt sérstaklega þar sem hann tæklaði mig í fótinn sem ég stóð í.“

Jón Daði var, eins og aðrir leikmenn liðsins, ánægður með frammistöðuna og fannst að íslenska liðið hefði getað fengið meira út úr leiknum.

„Þetta er gríðarlega erfiður útivöllur og fínt lið sem við erum að spila á móti. Ég er ágætlega ánægður með frammistöðu okkar. Við spiluðum fínan bolta og beittum fínum skyndisóknum af og til. Í heildina getum við bara verið ánægður með frammistöðuna. Fótboltinn er svo ósanngjarn eins og sást með því að fá aukaspyrnu í samskeytin í lokin,“ sagði Jón Daði, en hvað með sóknarleik íslenska liðsins sem var ekki öflugur í kvöld.

„Það var mikið af hálfærum hjá okkur og vantaði aðeins herslumuninn. Ég komst til dæmis einn inn fyrir og átti þar lélega snertingu. Engu að síður var fínt flæði í sóknarleiknum og við vorum sterkir varnarlega eins og alltaf.“

Framherjinn ungi sagði upplifunina að spila í Konya í kvöld vera magnaða en stemningin var svakaleg. „Þetta var geggjað. Þetta er það sem maður vill upplifa sem fótboltamaður: Að spila fyrir framan 40 þúsund manns í svona látum. Þetta var eins og stríð. Bara geðveikt gaman,“ sagði Jón Daði Böðvarsson.


Tengdar fréttir

Ragnar: Algjört kjaftæði

Miðvörður Íslands var ekki ánægður með dóminn sem leiddi að sigurmarki Tyrklands í Konya í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×