Fótbolti

Verðum ekki með neina tilraunarstarfsemi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lars ásamt Heimi Hallgrímssyni eftir leikinn gegn Kasakstan.
Lars ásamt Heimi Hallgrímssyni eftir leikinn gegn Kasakstan. Vísir/Vilhelm
Þrátt fyrir að íslenska landsliðið sé búið að tryggja sér sæti í lokakeppni EM í Frakklandi næsta sumar segir Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, að liðið verði að taka leikina gegn Lettlandi og Tyrklandi í undankeppninni alvarlega.

Góð úrslit í þeim gætu nefnilega skilað íslenska liðinu upp í þriðja styrkleikaflokk þegar dregið verður í riðla fyrir EM 12. desember næstkomandi.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að vinna leikina til að reyna að komast upp um styrkleikaflokk. Við erum í erfiðri stöðu en þetta ræðst á úrslitunum í okkar leikjum og því hvaða lið komast á EM,“ sagði Lars eftir að landsliðshópurinn fyrir leikina gegn Lettum og Tyrkjum var tilkynntur í gær.

Lars og Heimir Hallgrímsson gerðu aðeins eina breytingu á hópnum frá því síðast; Hólmar Örn Eyjólfsson kemur inn fyrir Rúnar Má Sigurjónsson. Lars á ekki von á því að nýta leikina til að prófa nýja hluti.

„Við verðum ekki með neina tilraunastarfsemi. Við gerum hugsanlega einhverjar breytingar á liðsvali en höfum ekki ákveðið neitt í þeim efnum. Ef það verða breytingar verða þær ekki margar,“ sagði Lars en á blaðamannafundinum í gær kom fram að landsliðsþjálfararnir stefndu að því að fá 7-8 vináttulandsleiki áður en lokakeppni EM hefst 10. júní.


Tengdar fréttir

Lars: Megum ekki slaka á

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, segir mikilvægt að íslenska liðið einbeiti sér að leikjunum tveimur gegn Lettlandi og Tyrklandi, frekar en að horfa strax til lokakeppni EM í Frakklandi næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×